Þegar við ferðumst um landið okkar Ísland má segja að sagan hrópi á okkur við hvert fótmál. Á Brekku erum við á slóðum Harðarsögu og Hólmverja. Hana má lesa á vefslóðinni http://www.snerpa.is/net/isl/hardar.htm
Í Harðarsögu er sögusviðið Borgarfjörðurinn og að stórum hluta innanverður Hvalfjörður. Á einum stað er getið um landnámsmanninn á Brekku, Önund Þormóðsson. Hann tekur þátt í knattleik og sköfuleik á Sandi. Þar segir: ,,Önundur Þormóðsson af Brekku var í móti Herði skipaður, vinsæll maður og rammur að afli. Sjá leikur var allharður en áður kveld kæmi lágu dauðir af Strandverjum sex menn en enginn af Botnverjum. Fóru nú heim hvorirtveggju. Önundi fylgdu allir þeir er utan voru af Strönd. En er þeir komu skammt inn frá Brekku þá bað Önundur þá fara fyrir “en eg vil,” segir hann, “binda skó minn.” Þeir vildu ekki frá honum ganga. Hann settist niður og heldur hart. Í því dó hann og er þar jarðaður. Þar heitir nú Önundarhóll.”
Sem kunnugt er voru Hólmverjar útlagar í Geirshólma eða Harðarhólma, sem er fyrir utan Þyrilsnes og blasir við frá Brekku. Árið 983 voru Hólmverjar felldir í Þyrilsnesi í hrikalegri viðureign. Nóttina eftir vígin er talið að Helga Jarlsdóttir kona Harðar hafi synt í land með syni þeirra tvo og falið sig í Helguskarði í Þyrli. Fór Helga síðan sem leið lá til Þorbjargar mágkonu sinnar, systur Harðar er bjó að Indriðastöðum í Skorradal. Indriði maður Þorbjargar hefnir síðan fyrir Hörð. Indriði drepur Þorstein bónda á Þyrli en þegar hann gerði það fór hann niður nánast þverhnípta hraunlagastafla í Þyrli og heitir þar síðan Indriðastígur.
Í Sturlungu er einnig getið um hólmann er liðsflokkur Sturlu Sighvatssonar settist að í um tíma á Sturlungaöld og fór þaðan í ránsferði. Þar er átt við Harðarhólma.
Davíð Stefánsson frá Fagraskógi orti magnað kvæði um Helgu Jarlsdóttur.
I.
Myrka stigu margur rekur. Mörg eru sporin orpin sandi. Kólguhljóðið kalda vekur konu eina á Gautalandi. Að björgum hrynja bárugarðar. Brimhljóð rjúfa næturfriðinn. Minningar frá hólma Harðar hljóma gegnum ölduniðinn.
IV.
Í Hólminum var bágt til bjargar, búið hungur sekum mönnum. Fara þurfti ferðir margar. Flutu skip á köldum hrönnum. Margt var rætt um miðja óttu, mörgum sveini vandi falinn. Hesta, naut og sauði sóttu sumir upp í Skorradalinn.
Oft var gott og glatt á hjalla, er garpar sátu kringum bálið. Bjarminn lék um allt og alla, — en oft var Herði þungt um málið. Við drauma, spár og dularsögur dimmir fljótt í hugarborgum. Mörg stormanótt var stjörnufögur, en stóð þó ótti af dagsins sorgum.
VII.
Einn er frjáls og annar sekur. Allt er lífið stríð og vandi. Kólguhljóðið kalda vekur konu eina á Gautalandi. Sigldi ég heim frá Harðar byggðum, harma liðna sektardaga. Full af hreysti og hetjudyggðum er Hólmverjanna raunasaga.
Sé ég oft um svartar nætur sýnir gegnum rúm og tíma, meðan hjartað gauska grætur af gleði, sorg og ástarbríma. Þegar bresta bárugarðar og bátum er úr nausti hrundið, þrái ég alltaf hólma Harðar, og hugurinn flýgur yfir sundið.
Treysti ég því, að tímans straumur tryggðir gamlar endurskíri. Hörður, þú ert hugans draumur, hjartans ljóð og ævintýri. Meðan lífsins logar dofna, lofa ég þig í kvæði og sögum. Enginn meinar mér að sofna við minningar frá liðnum dögum.
II.
Ég var ung og átti forðum elda þá, sem heitast brenna. Ég hlaut mest af ástarorðum allra hinna gausku kvenna. Hetjur lyftu hornum sínum. Hyllt var ég af skáldum flestum. En — aðeins náði ástum mínum einn af jarlsins hallargestum.
Man ég, er ég sá að sandi sigla fley með voðum þöndum. Þá var gott á Gautalandi, gleði yfir sæ og ströndum. Orðin sungu á allra tungum. Æskan lék við hvern sinn fingur. Til hallar gekk með hetjum ungum hár og glæstur Íslendingur.
Hann var öllum öðrum fegri, eygur vel og
lokkableikur, öllum hetjum hetjulegri. Hann var logi, aðrir reykur. Hann var Íslands ungi sonur, óskabarn af norsku kyni.
Fræknir menn og fagrar konur fögnuðu Herði Grímkelssyni. Í öllu var hann margra maki, mestur allra að dirfsku og afli, þreytti sund á bringu og baki, bestur allra í leik og tafli, kunni að verða af kappi æstur, kveikti í hjörtum logabranda. Alltaf var hann goðaglæstur, gæddur snilld og konungsanda.
Fljótt við ástir okkar festum órjúfandi tryggðarböndum. Þá kom margt af góðum gestum, göfugt lið frá mörgum löndum. Þá var söngur, gleði og glaumur. Glóði vín á dýrum skálum. Framtíðin var fagur draumur,fögnuður í ungum sálum.
Eldar kvikna. Eldar braka. Aldrei gleymast fyrstu kvöldin. En sú náð að njóta og vaka nakin bak við rekkjutjöldin. Hvert hans orð var ilmi blandið. Allt var gott,
sem Hörður gerði. Svo yfirgaf ég Gautalandið, gekk til skips — og fylgdi Herði. Upp úr hvítum úthafsbárum
Ísland reis í möttli grænum. Heilluð grét ég helgum tárum af hamingju og fyrirbænum. Við mér brostu birkihlíðar; blikuðu fjöll í sólareldi. Aldrei fann ég fyrr né síðar fegri tign og meira veldi.
V.
Morðadaginn mikla og þunga man ég glöggt, þó eldri verði. Sat ég ein með sveina unga og sá í land — á eftir Herði. Í landi biðu böðladróttir. Brann ég milli ótta og vonar. En ég var Helga Haraldsdóttir, Harðar kona Grímkelssonar.
Hefndarþorstinn harminn létti.Heyrði eg kaldar bárur gnauða. Henti ég mér af háum kletti í hafið upp á líf og dauða. Við mig hafði eg Björninn bundið. Bróður hans var nóg að eggja. Braust ég yfir bárusundið, bjargaði lífi sona tveggja.
Naut ég afls og örmum beitti. Yfir Þyrli máninn glóði. Sundið fast ég friðlaus þreytti, fannst ég synda í Harðar blóði. Hjartað var þeim böndum bundið sem brúði veika að hetju gera. Til hinsta dags skal Helgusundið heiðinni móður vitni bera.
III.
Man ég úti í Harðarhólma hungurvæl í fálka og smyrli. Að bergi hrundi báran ólma. Bólgnuðu skýin yfir Þyrli. Stoltar hetjur stóðu á verði. Stormur kaldur blés af fjöllum. Sat ég þá í sekt með Herði, sveininum, er bar af öllum.
Af ýmsum var hann illa ræmdur, ættarsmár og fjandamargur, út í hólminn friðlaus flæmdur, fyrirlitinn brennuvargur. Satt er það, að blóð á brandi bar hann oft á vopnaþingum og neytti afls, svo níðingsandi ei taki á Íslendingum. Engan
veit ég betri bróður, betri föður, vin og maka. Hann vó af dyggð sem drengur góður. Um drápfýsn má hann enginn saka. Síst var hann að bjóða bætur né biðja um grið að loknu verki.Heill sé þeim, sem lífið læturog lifir undir Harðar merki.
Svaf ég trygg í sekum örmum. Sælt var mér að fylgja Herði. Ást hans bætti úr öllum hörmum; allt var gott, sem Hörður gerði. Með vopnum eru sekir sóttir, svívirt þeirra ást og lotning. Ég er Helga Haraldsdóttir,Hólmverjanna tigna drottning.
VI.
Mér var seinna af mörgum sagður morðingjanna grimmi leikur, er Hörður var að velli lagður vígamóður, dauðableikur. Mörgum tókst að myrða Hörðinn; margir féllu; sumir runnu. Blóðið heita bergði jörðin og bölvaði þeim, sem verkið unnu.
Góðir drengir Harðar hefndu. Höggið var án dóms og laga. Hetjur þær, sem heit sín efndu, hyllir Saga alla daga. Sungin verða sektarljóðin. Svikarar verða alltaf smáðir. Með orðstír launar Íslandsþjóðin allar góðar hetjudáðir. Hún er fædd við eld og ísa, ægileg og tignarfögur.
Hún er mild sem vögguvísa, voldug eins og hetjusögur. Hún er björt sem dýrðardagur, drungaleg sem nóttin svarta. Hún er grimm sem galdrabragur, göfug eins og móðurhjarta.
Frá dögum Harðar, Helgu og Geirs hefur mikið vatn runnið til sjávar á Hvalfjarðarstöndinni. Fjörðurinn fagri kom við sögu í seinni Heimstyrjöldinni, þegar bandamenn sigldu herskipum sínum inn fjörðinn og kafbátar lágu í djúpum firðinum.
Bandaríkjamenn reistu mikla eldsneytisbirgðastöð í landi Miðsands og Litlasands við Hvalfjörð, sem er næsta jörð við Brekku, auk birgðastöðvar vegna skipaviðgerða. Bæði skip og olíuskip tóku þar olíu og þau síðarnefndu birgðu svo upp önnur skip í flotadeildum á hafi úti. Upphaflegt skálahverfi olíustöðvarinnar stendur enn að hluta á Miðsandi og er með heillegustu minjum styrjaldarinnar á landinu. Þar má sjá einstætt safn þeirra mismunandi braggategunda sem herlið bandamanna reisti yfir starfsemi sína. Þeim hefur verið vel við haldið enda í fullri notkun fram á síðari ár því olíubirgðastöðin var nýtt áfram fyrir varnarliðið á Keflavíkurflugvelli og ný reist fyrir herskip NATO. Vegna mikilla umsvifa bæði Breta og Bandaríkjamanna í Hvalfirði má finna ýmsar minjar um veru þeirra víðs vegar við fjörðinn. (Vísindavefur HÍ).